LungA-skólinn býður upp á 12 vikna LISTnám sem fer fram tvisvar á ári, á vorin og haustin og 12 vikna LANDnám einu sinni á ári. Skólinn er á Seyðisfirði þar sem þú munt vera og búa í skólanum á meðan námi stendur.

Þessi síða fjallar um staðnámin LIST og LAND - ef þú hefur áhuga á Útvarpsskólanum eru allar upplýsingar hér: https://www.lungaschool.is/en/radio

Umsóknarferli

Hver umsóknarlota er opin í sex vikur. Eftir frestinn munu brautarstjórar taka sér einn mánuð til að lesa, íhuga og ræða umsóknirnar og þá hópsamsetningu sem þau sjá sem fjölbreytta, eflandi og áhugaverða. Brautarstjórar munu hafa samband við þig varðandi umsókn þína innan fjögurra vikna.

Verð

Þátttakendur greiða gjald til að sækja LungA-skólann. Innifalið í verði er kennsla, vinnurými, fullt fæði (morgun-, hádegis-, og kvöldverður á virkum dögum og morgun-, og kvöldverður um helgar), gisting í tólf vikur, efniviður fyrir vinnustofur og tæki og tól tengd náminu. Leitaðu ráða hjá þínu stéttarfélagi og sveitarfélagi varðandi fjárhagsaðstoð.

Einhverjir menntaskólar og listnámsskólar meta einingar úr þessu námi.

Verð fyrir tólf vikna önn er 700.000 kr.

Athugið að þátttakendur sem fá boð í skólann þurfa að greiða staðfestingargjald, 60.000 kr. innan tveggja vikna til að tryggja sér sæti. Staðfestingargjaldið gengur upp í skólagjald sem þarf að greiða að fullu áður en skólinn hefst.

Hver getur sótt um

Allir geta sótt um – engin sérstök reynsla er nauðsynleg. LungA-skólinn er skyldugur að forgangsraða þátttakendum á aldrinum 18 til 25 ára, þar sem hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að undirbúa nemendur fyrir lífið. Hins vegar þýða einstaklingsbundnar aðstæður oft að þú gætir haft eða þurft mismunandi lífsreynslu á mismunandi tímum. Við erum einnig meðvituð um mikilvægi símenntunar og ávinningin af fjölbreyttum nemendahóp. Ef þú ert að sækja um hjá okkur og verður eldri en 25 ára við innritun, vinsamlegast láttu fylgja með rökstuðning í umsókn þinni.

Fjöldi þátttakenda

LIST-brautin rúmar 18 þátttakendur auk gestaleiðbeinenda, gestalistamanna og brautarstjóra.

LAND-brautin rúmar 16 þátttakendur auk gestaleiðbeinenda, gestalistamanna og brautarstjóra.

Gisting

Allir nemendur búa á heimavist á Seyðisfirði. Þátttakendur búa saman og sjá um húsin og önnur rými saman. Að búa með öðrum er hluti af því að vera í skóla saman og því, eins og í flestum lýðskólum, eru herbergi yfirleitt deilt með öðrum þátttakanda, með sameiginlegum baðherbergjum og eldhúsi. Skólinn útvegar gistingu í tvo daga áður en námið hefst og tveimur dögum eftir að því lýkur.

Matur

Skólinn býður upp á grænmetismat í hádegis- og kvöldverð á virkum dögum. Þátttakendur sjá saman um morgunverð alla daga og kvöldverð um helgar en matarkostnaður er innifalinn í þátttökugjaldi.

Aðgengi

Aðgengi snýst ekki eingöngu um byggingar eða aðstöðu, heldur einnig um að skilja hvernig umhverfis-, félags- og kerfislegir þættir móta upplifun fólks og möguleika þess til þátttöku. Við metum fjölbreytilegar lífsreynslur og viljum skapa umhverfi sem aðlagast ólíkum leiðum varðandi hvernig það er að vera manneskja.

Þátttakendur sem hafa sérstakar þarfir varðandi aðgengi eru hvattir til að láta okkur vita af þeim hvort sem er fyrir og á meðan á inntökuferli stendur. Það hjálpar okkur við skipulagningu og sýnir jafnframt viðurkenningu á því að líkamar og hugar virka á mismunandi hátt í samspili við umhverfið.

Fyrir þau sem eiga erfitt með hreyfingu er mikilvægt að vita að aðstaða skólans er dreifð um bæinn og ekki að fullu aðgengileg fyrir hjólastóla. Náttúrulegt landslag Seyðisfjarðar getur einnig verið krefjandi, sérstaklega þegar veður er breytilegt eða slæmt.

Við skuldbindum okkur til að gera viðeigandi aðlögun þar sem það er mögulegt. Við skiljum líka að aðgengi snýst ekki eingöngu um aðlögun á húsnæði og aðstöðu, heldur einnig um að styðja sjálfstæði, öryggi og reisn hvers einstaklings í sinni eigin tilveru.

Hvernig er Seyðisfjörður?

Seyðisfjörður er ekki stór bær – en hann er frábær bær! Og þrátt fyrir smæðina er innisundlaug, kaffihús, matvöruverslun, bar, sjúkrahús, gestavinnustofur og gallerí, golfvöllur, skíðasvæði, bíó og margt fleira.

Að ferðast til Seyðisfjarðar

Ef þú býrð erlendis eru nokkrar leiðir til að komast til Seyðisfjarðar. Einn valkostur er að taka Norrænu, Smyril Line ferjuna. Siglt er vikulega til Seyðisfjarðar frá Hirtshals í Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Annar kostur er að fljúga til Keflavíkurflugvallar og annað hvort taka þaðan rútu eða keyra í 8–10 klst., eða fljúga til Egilsstaða (25 mínútna akstur frá Seyðisfirði). Hægt er að taka rútu til Seyðisfjarðar frá Egilsstöðum.